Nokkra mínútna sumar


Sólin skín á mig þar sem ég sit í sjónvarpsstólnum. Hún hefur hægt og sígandi nálgast þennan stað á himninum, eins og hún hafi verið að leita að mér allan daginn. Nú þegar hún hefur fundið mig fyllir hún mig sumri. Ég finn fyrir stækkandi sumargleði í huganum í hvert sinn sem ég dreg andann, mettaðan gullnum blæ sólarinnar.
 
Klukkan er núna sautján þrjátíu og sex og það fer að kvölda. Sólin er næstum farin framhjá, sátt eftir dagsverkið og himinlifandi yfir að hafa náð að sjá mig þó ekki væri nema part úr degi.
 
Því ekki er eins og ég sé að fara og finna hana sjálf. Úti er ennþá kalt, snjór, klaki. 
En þegar sólin finnur mig hérna þar sem ég sit er eins og það sé sumar örlitla stund á hverjum degi.
 
Það er sorgarstund þegar það dregur fyrir sólu og mér líður eins og það hafi snögglega haustað aftur og veturinn þyrmir yfir mig.
 
En ég get iljað mér ennþá við tilhugsunina um það að á morgun á svipuðum tíma mun sumarið koma á ný.

Kannski baka ég. 
 
 

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband