Nokkra mínútna sumar


Sólin skín á mig þar sem ég sit í sjónvarpsstólnum. Hún hefur hægt og sígandi nálgast þennan stað á himninum, eins og hún hafi verið að leita að mér allan daginn. Nú þegar hún hefur fundið mig fyllir hún mig sumri. Ég finn fyrir stækkandi sumargleði í huganum í hvert sinn sem ég dreg andann, mettaðan gullnum blæ sólarinnar.
 
Klukkan er núna sautján þrjátíu og sex og það fer að kvölda. Sólin er næstum farin framhjá, sátt eftir dagsverkið og himinlifandi yfir að hafa náð að sjá mig þó ekki væri nema part úr degi.
 
Því ekki er eins og ég sé að fara og finna hana sjálf. Úti er ennþá kalt, snjór, klaki. 
En þegar sólin finnur mig hérna þar sem ég sit er eins og það sé sumar örlitla stund á hverjum degi.
 
Það er sorgarstund þegar það dregur fyrir sólu og mér líður eins og það hafi snögglega haustað aftur og veturinn þyrmir yfir mig.
 
En ég get iljað mér ennþá við tilhugsunina um það að á morgun á svipuðum tíma mun sumarið koma á ný.

Kannski baka ég. 
 
 

Tattoo

 
Ég er ekki viss um að rithöfundar hafi yfirleitt einhver tattoo.
 
Kannski eru þeir með andlitsmynd af Hemingway á öxlinni eða titilinn á uppáhald skáldsögunni á handleggnum.
 
Ég hef ekkert tattoo sjálf, ég hef hvorki né áhuga á að fá mér slíkt. Samt tel ég mig vera áhugamanneskju um allt sem tengist list og tattoo er mikil list. Maður þarf að vera ansi hugrakkur og sjálfsöruggur til að vera líkamsblekari.
 
Ég hef verið beðin að hanna tattoo þar sem ég get þokkalega valdið svörtum penna og get gert með honum margskonar óskiljanleg skrímsli og abstrakt hluti. Ég hef ekkert á móti slíku og þætti það í raun heiður að hanna eitthvað sem einhver vildi svo setja á líkamann sinn á þann hátt að nema með mikilli fyrirhöfn er það þar að eilífu eins og ör á enninu sem maður fékk fyrir að hlaupa of hratt á milli fjörusteina. Ör sem minnir mann á þegar maður var sú manneskja sem þorði slíku.
 
Ekki eru allir jafn hugrakkir samt. Maður sem bað mig að hanna á sig tattoo hefur stóran lista af tattoo-um sem hann hefur hugsað sér að láta þekja líkama sinn með eftir að hann er látinn.
 
Hann hefur líklegast ekki þorað að hoppa á milli fjörusteina sem barn. 
 
 

Sushi


Það er flókið að hafa það markmið að verða rithöfundur þegar maður er ekki alveg fæddur í það.
 
Það er svolítið eins og dvergur í körfubolta eða blindur leiðsögumaður.
 
Mér finnst að maður verði að hafa visst magn að af snobbi í sér til að vera rithöfundur. Ég hef eitt og annað sem er mér í hag. Ég borða sushi til dæmis. Það er svolítið snobbað. Maður verður að hafa svolítið af geðveiki sem ég hef meira en nóg af. Sjá mikið úr litlu og hugsa of mikið. Það hefur aldrei verið vandamál hjá mér þó svo að gæði þessara hugsana séu ekki endilega mikil litið á ljóðrænan máta eða að það sé efni í stórmerkilegar bókmenntir.
 
Ég hugsa samt ekki mikið þegar ég borða sushi. Þegar ég ætti að vera að treyna þessa einu af örfáu  snobbstundum sem ég upplifi þá er stundin liðin áður en ég átta mig á að lifa mig inní hana og reyna að fá innblástur fyrir einhverju skemmtilegu og vægt snobbuðu til að skrifa um. 
Ég sé ekki einu sinni fólkið í kringum mig sem er að borða. Man ekki hversu margir voru og hvernig þau voru klædd.
 
Ég er aldrei klædd í snobb. Síðast þegar ég fékk mér sushi var ekkert öðruvísi. Var bara í grænu úlpunni minni og  gallabuxum. Ástæðan fyrir að þetta skipti stendur aðeins uppúr og að ég man hvernig ég var klædd er af því að það var rice crispies ofan á sushiinu mínu. Ég hef aldrei heyrt um svoleiðis áður svo það kom í veg fyrir að ég gleypti það í mig á broti úr sekúndu.
 
Ég er of íhaldsöm og óævintýragjörn til að þora að borða sushi með rice crispies og skóf þau af eins og lítið barn sem vill ekki sveppina á pítsunni sinni.
 
Ég vona að ég hafi ekki móðgað sushigerðarmanninn sem sér að það eina sem eftir er á disknum voru 7 korn af rice crispies. 


Grænt jóga dót


 
Ég hlakka til að verða rithöfundur. Þá ætla ég að skrifa stórfenglega ómerkilega hluti.
 
Allt það sem er yfirgengilega hversdagslegt.
 
Ég ætla að skrifa til dæmis um grænt jóga dót.

Ég mun skrifa um grænt jóga dót af því að allt jóga dótið mitt er grænt.

Þetta er ekki þessi ljúfi og róandi græni litur sem fær mann til að hugsa um gamla tíma þegar öll gólf voru teppalögð. Hann er heldur ekki beint sterkur og orkumikill eins og liturinn á ungri kókoshnetu. Þetta er svona tyggjógrænn, eftir að tyggjóið hefur verið tuggið tímunum saman og liturinn hefur horfið að mestu leyti og tekið á sig grængráan blæ.
 
Kannski er vert að taka fram að ég á aðeins tvo jóga hluti. Bolta sem er á stærð við litla reikistjörnu. Græna reikistjarnan er á sporbaug um stofuna og brýtur það sem á vegi hennar verður sem eru oftast kaffibollar og smádót sem enginn nennir að hirða upp af gólfinu. Og svo á ég þunna mottu sem hefur óljósan tilgang þar sem hún ver bakið ekkert fyrir hörðu gólfinu. Hún liggur beint að sjónvarpsstólnum. Græna mottan er rauði dregillinn minn og passa ég mig að ganga bein í baki og hef daðrandi bros á vör þegar ég geng þokkafull á græna rauða dreglinum mínum að sjónvarpsstólnum.

Ég fór um daginn að skoða meira jógadót í verslun sem selur meðal annars jógadót.
Það er augljóslega langt síðan ég hef keypt jógadót því græni liturinn er ekki lengur vinsæll heldur var mest til af fjólubláu og bláu og bleiku.
 
Ég sá að ég verð að bíða með að kaupa meira jógadót þangað til græni liturinn dettur aftur í tísku. 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband