Grænt jóga dót


 
Ég hlakka til að verða rithöfundur. Þá ætla ég að skrifa stórfenglega ómerkilega hluti.
 
Allt það sem er yfirgengilega hversdagslegt.
 
Ég ætla að skrifa til dæmis um grænt jóga dót.

Ég mun skrifa um grænt jóga dót af því að allt jóga dótið mitt er grænt.

Þetta er ekki þessi ljúfi og róandi græni litur sem fær mann til að hugsa um gamla tíma þegar öll gólf voru teppalögð. Hann er heldur ekki beint sterkur og orkumikill eins og liturinn á ungri kókoshnetu. Þetta er svona tyggjógrænn, eftir að tyggjóið hefur verið tuggið tímunum saman og liturinn hefur horfið að mestu leyti og tekið á sig grængráan blæ.
 
Kannski er vert að taka fram að ég á aðeins tvo jóga hluti. Bolta sem er á stærð við litla reikistjörnu. Græna reikistjarnan er á sporbaug um stofuna og brýtur það sem á vegi hennar verður sem eru oftast kaffibollar og smádót sem enginn nennir að hirða upp af gólfinu. Og svo á ég þunna mottu sem hefur óljósan tilgang þar sem hún ver bakið ekkert fyrir hörðu gólfinu. Hún liggur beint að sjónvarpsstólnum. Græna mottan er rauði dregillinn minn og passa ég mig að ganga bein í baki og hef daðrandi bros á vör þegar ég geng þokkafull á græna rauða dreglinum mínum að sjónvarpsstólnum.

Ég fór um daginn að skoða meira jógadót í verslun sem selur meðal annars jógadót.
Það er augljóslega langt síðan ég hef keypt jógadót því græni liturinn er ekki lengur vinsæll heldur var mest til af fjólubláu og bláu og bleiku.
 
Ég sá að ég verð að bíða með að kaupa meira jógadót þangað til græni liturinn dettur aftur í tísku. 

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband